Margir upplifa svo mánuðum eða jafnvel árum skiptir að þeir hafi lítinn sem engan tíma sem ekki er skipulagður út í hörgul. Það er himinn og haf á milli slíkrar tilveru og tilveru fólks í löndum þar sem vestræn menning hefur ekki rutt sér til rúms nema að litlum hluta og streitu- og álagseinkenni eru nánast óþekkt eins og í sumum löndum Afríku. Kannski er það rétt lýsing að Vesturlandabúar eigi klukku til að mæla tíma á meðan að Afríkubúar eiga tímann sjálfan. Hvað sem því líður þá virðist vera þörf á því að við stöldrum aðeins við og hugsum okkar gang.